Milljónir barna og ungmenna á flótta eru enn utan skóla – Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna kallar eftir því að þau fái aðgang að menntakerfum

Aðgangur að öllum menntastigum, allt frá frumbernsku til æðri menntunar, veitir mikilvæga vernd og þjálfun til að efla framtíðarmöguleika ungs flóttafólks sem hefur þurft að flýja heimili sín vegna stríðsátaka, ofbeldis og ofsókna.

Engu að síður eru börn og ungmenni á flótta eftirbátar annarra jafnaldra sinna á öllum menntunarstigum, eins og kemur fram í skýrslunni All Inclusive: The Campaign for Refugee Education, sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna birti í dag.

Í skýrslunni, sem byggð er á gögnum frá meira en 40 löndum, kemur fram að meðalinnritunarhlutfall í grunnskóla fyrir börn á flótta var 68 prósent á skólaárinu 2020-2021. Hlutfall flóttafólks í námi snarlækkar niður í 37 prósent á framhaldsskólastigi og er aðeins 6 prósent á háskólastigi. Þróunin er þó jákvæð, því fyrir nokkrum árum hafði bara 1 prósent ungmenna á flótta aðgang að æðri menntun.

„Stundum er sagt að hæfileikum sé jafnt dreift en tækifærum ekki, og það á svo sannarlega við um milljónir barna á flótta. Við þurfum að brúa bilið milli hæfileika og tækifæra“ segir Filippo Grandi, flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna.

„Í tilfelli flóttafólks er þetta fjárfesting í fólkinu sem kemur til með að reisa heimaland sitt við þegar það getur snúið aftur heim.“

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna kallar eftir því að flóttafólk sé tekið inn í menntakerfi móttökulanda frá upphafi neyðarástands, á meðan á landflótta stendur og í þróunarskipulagi til lengri tíma. Þetta útheimtir meðal annars aukin framlög til menntunar og launa kennara, nýja innviði, viðunandi kennsluefni, öruggar ferðir til og frá skóla,aðgang að prófum og prófgráðum og leiðréttingu á stafrænum aðstöðumun meðal flóttafólks.

Grandi tekur fram að mörg lönd hafi að undanförnu tekið stór skref í átt að því að gera flóttafólki kleift að stunda formlegt nám. „Nú þurfum við að fylgja þessum stefnum eftir með verulegri og langvarandi fjármögnun og halda áfram að leggja áherslu á kosti þess að engum sé mismunað“ segir hann.

Sjöfaldi Formúlumeistarinn Sir Lewis Hamilton styður ákall Flóttamannastofnunarinnar um að gera öllum börnum og ungmennum á flótta kleift að stunda formlegt nám, fá aðgang að góðri menntun og láta ekki skilja sig eftir á jaðri þjóðfélagsins.

„Menntun víkkar ekki bara sjóndeildarhring fólks og veitir því tækifæri sem því hefði ekki annars dottið í hug að láta sig dreyma um heldur vegur hún líka upp á móti skaðlegum áhrifum kerfisbundins óréttlætis“ segir Lewis, sem ritar lokaorð skýrslunnar.

„Þetta snýst ekki bara um að skapa ungu fólki betri lífskjör og hjálpa því að finna tilgang sinn og móta framtíð sína, heldur líka um keðjuverkandi áhrifin: aukna fjölbreytni í stjórnunar- og áhrifastöðum í atvinnulífinu, íþróttum, menningu og stjórnmálum.“