Yfirlýsing Filippo Grandi, flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, um COVID-19 krísuna

Nú frekar en nokkru sinni fyrr kallar Grandi eftir samstöðu og samkennd.

„Nú þegar heimurinn berst gegn útbreiðslu COVID-19 eru mörg lönd að beita með réttu sérstökum ráðstöfunum sem takmarka flugsamgöngur og ferðir yfir landamæri.

Og um allan heim hefur daglegt líf stöðvast eða breyst fyrir mörg okkar á vegu sem við höfðum aldrei séð fyrir.

En stríð og ofsóknir hafa ekki stöðvast – og í dag, um allan heim, heldur fólk áfram að flýja heimili sín í leit að öryggi. Ég hef sífellt meiri áhyggjur af ráðstöfunum sem samþykktar hafa verið af sumum löndum, sem gætu hindrað að fullu réttinn til að óska eftir hæli.

Öll ríki verða að stjórna landamærum sínum í samhengi við þessa einstöku krísu eins og þeim sýnist best. En þessar ráðstafanir ættu ekki að leiða til lokunar á leiðum til hælis eða neyða fólk til að snúa aftur í hættuástand.

Lausnir eru til. Ef heilbrigðishætta er greind, er hægt að koma á skimunum ásamt prófunum, sóttkví og öðrum ráðstöfunum. Það mun gera stjórnvöldum kleift að stjórna komu hælisleitenda og flóttamanna á öruggan hátt, en jafnframt virða alþjóðlega staðla um vernd flóttamanna sem ætlað er að bjarga mannslífum.

Við skulum ekki gleyma þeim sem eru að flýja stríð og ofsóknir á þessum krefjandi tímum. Þeir þurfa – við þurfum öll – samstöðu og samkennd nú frekar en nokkru sinni fyrr.“