Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna kallar eftir viðvarandi stuðningi til að vernda flóttafólk gegn „hrikalegum“ áhrifum kórónuveirunnar

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna þarfnast nauðsynlegs stuðnings við undirbúning og heftingu á útbreiðslu COVID-19 meðal flóttamanna og annarra einstaklinga á flótta um allan heim.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna óskar eftir 745 milljón Bandaríkjadölum nú þegar hún undirbýr sig og reynir að koma í veg fyrir útbreiðslu COVID-19 meðal flóttamanna og annarra einstaklinga á flótta um allan heim. Hér er hluti Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna úr endurskoðaðri alþjóðlegri viðbragðsáætlun Sameinuðu þjóðanna þar sem óskað er eftir um 6,7 milljarða Bandaríkjadala, sem kynnt var síðastliðinn fimmtudag. Þetta er endurskoðun á upphaflegu fjármagni að upphæð 255 milljóna Bandaríkjadala frá fyrri beiðni Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna þann 25. mars síðastliðinn. Hún er byggð á nýju mati á alþjóðlegum þörfum til að draga úr áhrifum heimsfaraldursins meðal flóttafólks.

Kórónavírusinn er nú að finna í öllum löndum, þar á meðal þeim sem hýsa mikinn fjölda flóttamanna. 71 milljón flóttamanna og annarra vegalausra einstaklinga eru í afar viðkvæmri stöðu og í allra mestu hættu á að smitast.

Þó að ekki hafi verið tilkynnt um útbreiðslu vírussins í stórum flóttamannabúðum bregst Flóttamannastofnunin fljótt við í þeim 134 löndum sem hýsa flóttamenn og hafa tilkynnt um landlægt smit.

„Heimsfaraldurinn hefur valdið miklum skaða um allan heim, sérstaklega hjá konum og öldruðum. Þau sem hafa flúið stríð og ofsóknir mega nú þola hræðilegt álag í þegar kröppum lífskjörum og gestgjafa sinna,“ segir Filippo Grandi, flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna. „Sameinuðu þjóðirnar og félagasamtök þeirra eru staðráðin í að halda áfram á sömu braut, vera til staðar fyrir fólk á flótta og gestgjafa þeirra, og tryggja að það hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu og félagslegu öryggisneti.“

Frá og með deginum í dag hafa fjórar milljónir einstaklinga smitast af kórónuveirunni og tæplega 280 þúsund hafa látist. Þar sem ekki er búist við að veiran nái hámarki í fátækustu löndum heims fyrr en eftir þrjá til sex mánuði eru teymi Flóttamannastofnunarinnar um allan heim í viðbragðsstöðu – og búa sig undir það versta.

Vísbendingar um mikil og hörð efnahagsleg áhrif krísunnar á flóttamenn eru yfirþyrmandi. Víðsvegar um Miðausturlönd og Afríku hafa hundruð þúsundir flóttamanna beðið um brýna fjárhagsaðstoð til að mæta daglegum nauðsynjum frá því lokanir og aðrar lýðheilsuaðgerðir tóku gildi í tilteknum löndum í mars. Í Líbanon, landi sem stóð frammi fyrir efnahagslegri niðursveiflu áður en heimsfaraldurinn skall á, greindi rúmlega helmingur þeirra flóttamanna, sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafði kannað í lok apríl, frá því að hafa misst lífsviðurværi sitt. Meðal þeirra flóttamanna sem rætt var við sögðust 70 prósent þurfa að sleppa máltíðum. Áhrifin á flóttakonur eru mikil og nánast allar sem voru í starfi sögðu tekjulind sína hafa raskast.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur áhyggjur af því að tap á launum og lífsviðurværi geti haft í för með sér sálfræðilega og félagslega erfiðleika. Í Jórdaníu greina félagasamtök frá verulegri aukningu síðan í mars á geðheilbrigðisvandamálum og einstaklingum sem leita sér sálfræði- og félagslegrar aðstoðar.

Hópar sem eru í sérstakri hættu á fátækt og misbeitingu eru konur sem eru fyrirvinna heimilisins, fylgdarlaus og aðskilin börn, eldra fólk og LGBTI-fólk. Hægt er að bæta aðstæður þeirra með neyðaraðstoð, einkum með neyðarfjárstyrkjum.

Þökk sé skjótum og örlátum framlögum frá stjórnvöldum og einkaaðilum gat Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna brugðist fljótt við kórónaveirunni. Á nokkrum vikum gat Flóttamannastofnunin keypt og afhent rúmlega 6,4 milljónir andlitsgrímur, 850.000 sloppa, 3.600 súrefnisþjappa, 640 öndunarvélar, rúmlega 1.600 húsnæðiseiningar og 50 sjúkratjöld. Að auki hafa sex tonn af persónuhlífum og sjúkravörum verið flutt með flugi og 30 milljónum Bandaríkjadala í peningaaðstoð vegna COVID-19 faraldursins verið dreift til 65 landa.

Fjárframlögin munu hjálpa Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna að styrkja landlæg heilbrigðis- og hreinlætiskerfi með aukinni dreifingu á persónuhlífum, lyfjum, sápu og öðrum hreinlætisvörum. Flóttamannastofnunin vinnur einnig að því að: auka peningaaðstoð fyrir viðkvæmustu flóttafjölskyldurnar sem verða fyrir efnahagslegu áfalli; bæta skýli í fjölmennum byggðum til að koma í veg fyrir smit milli manna og útvega margra mánaða birgðir af hjálpargögnum og hreinlætisvörum með dreifingu sem virðir fjarlægðareglur milli einstaklinga.

Fjárframlög munu einnig tryggja að Flóttamannastofnunin geti aukið vernd og aðstoð, þar á meðal vernd barna og þjónustu á sviði kynferðislegs og kynbundins ofbeldis. Flóttamannastofnunin aðlagar sig fljótt og örugglega að verndaráætlunum fyrir þolendur ofbeldis og berst fyrir því að heilbrigðisþjónusta, sálfræðilegur og félagslegur stuðningur og öryggisþjónusta séu í nauðsynjaflokki og haldi áfram að standa flóttafólki til boða.

Rúmlega 80 prósent flóttafólks heims og nær allt vegalaust fólk innan eigin lands er hýst í meðal- og tekjulitlum löndum, sum þeirra illa farin eftir átök, hungur, fátækt og sjúkdóma. Margt flóttafólk er í búðum eða þéttbyggðum þéttbýlissvæðum og býr oft við ófullnægjandi aðstæður með takmörkuðu og viðkvæmu aðgengi að heilsugæslu, hreinlætisaðstöðu og félagslegri vernd.

Þar af leiðandi forgangsraðar Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna viðbúnaði og forvörnum til að stemma stigu við heimsfaraldursógninni. Þetta eru mikilvægar aðgerðir til að forðast hærri dánartíðni meðal flóttafólks vegna þröngra búsetuskilyrða og lélegrar heilsugæslu, vatns- og hreinlætisaðstöðu.

Fjármagnið sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna óskar eftir í endurskoðaðri beiðni er til að mæta fjárhagsþörf Flóttamannastofnunarinnar vegna kórónuveirunnar fram til loka þessa árs. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna er þakklát þeim styrktaraðilum sem þegar hafa lagt fram nauðsynlegt fjármagn. Snemmbúinn stuðningur frá Bandaríkjunum, Þýskalandi, Evrópusambandinu, Bretlandi, Japan, Danmörku, Kanada, Írlandi, Sony Corporation, Svíþjóð, Finnlandi, Noregi og Ástralíu, svo og frá einkastyrktaraðilum frá öllum heimshornum, gerði okkur kleift að auka umsvif á heimsvísu.