UNHCR: Átökin í Sýrlandi hafa leitt til aukinna hælisumsókna í iðnríkjunum

Vegna átaka víðs vegar um heim, m.a. í Sýrlandi, Afghanistan, Írak og Sómalíu, fjölgaði hælisumsóknum í iðnríkjum um 8 prósent árið 2012. Mesta aukningin var hjá hælisleitendum frá Sýrlandi. Sömu þróun mátti sjá á Norðurlöndunum.

Í dag gefur UNHCR út skýrsluna Asylum Levels and Trends in Industrialized Countries 2012. Í þeim 44 löndum sem fjallað er um í skýrslunni hafa samtals 479 300 hælisleitendur skráð sig. Það er mesti fjöldi síðan 2003.

„Stríð veldur því að fleira fólk sækir um hæli”, segir Antonio Guterres, Flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna. „Þess vegna er sérstaklega mikilvægt að viðhalda hinu alþjóðlega hæliskerfi. Ég hvet ríki til þess að halda landamærum sínum opnum fyrir fólki sem er á flótta undan stríðsátökum.”

Meðal svæða innan Evrópu átti mesta hlutfallslega aukningin í hælisumsóknum sér stað á Norðurlöndunum. Norðurlöndin fimm tóku á móti 62 900 hælisumsóknum á árinu 2012, sem er 38 prósent aukning frá 2011.

Í flestum tilfellum leitar fólk sem flýr stríð og hörmungar hælis í nágrannalöndum. Sýrland er dæmi um þetta, en fjöldi hælisumsókna þaðan er 24 800 í iðnríkjunum samanborið við rúmlega 1,1 milljón skráðra sýrlenskra flóttamanna í nágrannalöndunum. Um 8 000 Sýrlendingar fara yfir landamærin til nágrannalandanna á degi hverjum. Fjöldi hælisumsókna getur endurspeglað pólitískan óstöðugleika og þær aðstæður sem eru ríkjandi í alþjóðaöryggismálum: Því fleiri átök, því fleira fólk á flótta.

Samantekt úr skýrslunni:

Evrópa tók á móti flestum hælisleitendum árið 2012, eða samtals 355 500 í 38 löndum, samanborið við 327 600 árið 2011. Í Þýskalandi var mestur fjöldi nýrra hælisumsókna (64 500 umsóknir, sem er aukning um 41 prósent frá árinu 2011). Því næst komu Frakkland (54 900 umsóknir, aukning um 5 prósent frá 2011) og Svíþjóð (43 900 umsóknir, sem er aukning um 48 prósent frá 2011). Með 33 prósent aukningu frá 2011 fékk Sviss (25 900 umsóknir) næstum því jafn marga hælisleitendur og Bretland (27 400 umsóknir, 6 prósent aukning).

Meðal svæða innan Evrópu átti mesta hlutfallslega aukningin í hælisumsóknum sér stað á Norðurlöndunum. Norðurlöndin fimm tóku á móti 62 900 hælisumsóknum á árinu 2012, sem er 38 prósent aukning frá 2011. Að Finnlandi undanskildu var aukning hjá öllum Norðurlöndunum. 70 prósent allra hælisumsókna í umdæminu voru í Svíþjóð, eða 43 900 umsóknir. Noregur (9 800 umsóknir) og Danmörk (6 200) voru einnig mikilvægir viðtakendur hælisumsókna. Á Íslandi mátti jafnframt sjá aukningu í hælisleitendum, frá 72 árið 2011 í 116 árið 2012.

Bandaríkin var það land sem fékk flestar hælisumsóknir árið 2012, eða 83 400 sem er 7400 fleiri en árið 2011. Þrátt fyrir aukningu í Norðaustur Asíu, Ástralíu og á Nýja Sjálandi var fjöldi hælisumsókna hlutfallslega lágur. Í Japan og Suður-Kóreu voru 3 700 nýjar umsóknir skráðar sem er 28 prósent aukning frá 2011. Fjöldi nýrra hælisleitenda í Ástralíu jókst um 37 prósent, sem samsvarar 15 800 skráðum umsóknum árið 2012.

Afghanistan er enn sem fyrr upprunaland flestra hælisleitenda (36 600 samanborið við 36 200 árið 2011). Sýrland, sem árið 2011 var í 15. sæti, kemur því næst en átökin þar í landi hafa leitt til 191 prósent aukningar frá árinu 2011, sem þýðir að samtals 24 800 Sýrlendingar hafa sótt um hæli í iðnríkjunum. Serbía [og Kosovo: S/RES/1244(1991)] kemur þar á eftir með 24 300 hælileitendur, sem er aukning um 14 prósent.

UNHCR gefur út tölfræðiupplýsingar um flóttamenn, fólk á vergangi innan eigin landamæra og hælisleitendur í árlegri skýrslu sem ber heitið Global Trends. Skýrslan er fáanleg á heimasíðu UNHCR. Næsta Global Trends skýrsla er væntanleg í júní 2013.

Asylum Levels and Trends in Industrialized Countries 2012 er hægt að nálgast í heild sinni hér.

Page 1 of 4