'
;

Vernd

Venjulega tryggja stjórnvöld grundvallarmannréttindi og líkamlegt öryggi borgara sinna. En þegar fólk verður flóttafólk hverfur þetta öryggisnet.

Flóttamenn á flótta frá stríði eða ofsóknum geta verið mjög varnarlausir. Þeir hafa ekki vörn frá sínu eigin ríki og oft eru það þeirra eigin stjórnvöld sem ofsækja þá. Ef önnur lönd hleypa þeim ekki inn eða veita þeim vernd, kunna þeir að vera dæmdir til að lifa við óbærilegar aðstæður, þar sem grundvallarréttindi þeirra, öryggi og jafnvel líf er í hættu.

Hjá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna höldum við á lofti grundvallarmannréttindum ríkisfangslausra einstaklinga í hælislöndum sínum eða þar sem þeir hafa búsetu, til að tryggja að flóttamönnum verði ekki snúið gegn vilja sínum til lands þar sem þeir gætu mætt ofsóknum. Við hjálpum flóttafólki líka að finna langtíma lausnir, með því að snúa sjálfviljugt til heimalands, aðlagast í hælislandi eða setjast að í þriðja landi.

Í mörgum löndum vinna starfsmenn okkar ásamt samstarfsaðilum okkar á ýmsum stöðum, allt frá höfuðborgum til afskekktra búða og landamærasvæða. Þeir reyna að styðja við eða bjóða lagalega aðstoð og líkamlega vernd og draga úr ógn ofbeldis – þar á meðal kynferðislegs ofbeldis – sem margir flóttamenn búa við, jafnvel í hælislöndum. Þeir reyna líka að útvega að minnsta kosti lágmark skjóls, matar, vatns og heilsugæslu strax í kjölfar fólksflótta.

Alþjóðlegar aðgerðir

Að bjóða neyðaraðstoð þeim sem neyðst hafa til að flýja er oft fyrsta skrefið að langtíma vernd og endurhæfingu. Til að mæta þessu þörfum hefur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna skipulagt alþjóðlegt net birgja, sérhæfðra umboðsaðila og samstarfsaðila. Verkefnin geta verið allt frá því að senda neyðarteymi á vettvang hættuástands, leggja til neyðarbirgðir af mat, skýlum, vatni og læknavörum, og skipuleggja loftbrú fyrir meiriháttar fólksflutninga eða flota smáskipa fyrir minni fólksflutninga. Meðal þeirra fjölmörgu verkefna sem við sinnum eru verkefni sem snúa að umhverfisvernd, uppbyggingu skóla og vitundarvakningu um vandamál á borð við HIV og alnæmi.

Barátta fyrir vernd flóttafólks

Meðal aðgerða okkar í baráttu fyrir vernd flóttafólks eru:

  • Hvetja til aðildar að samningnum frá 1951 um réttarstöðu flóttamanna og bókuninni við hann frá 1967, samningnum frá 1954 um réttarstöðu ríkisfangslausra manna og samningnum frá 1961 um að draga úr ríkisfangsleysi. Árið 1999 hóf Flóttamannastofnunin herferð til að hvetja til aðildar að samningnum frá 1951 sem náði hámarki á 50. ártíð hans í júlí 2001 og á Ráðherrafundi aðildarríkja samningsins frá 1951, þann 12. og 13. desember 2001.
  • Aðstoða ríki við að samþykkja og endurskoða löggjöf um flóttamenn, þar á meðal verkferla stjórnsýslunnar og leiðbeiningar, og til að innleiða í löggjöf ferla til að veita stöðu flóttamanns.
  • Styrkja helstu stjórnsýslu- og lagastofnanir, þjálfa opinbera starfsmenn og frjáls félagasamtök og vinna með helstu aðilum sem vinna að mannréttindum.

Flóttamannastofnunin tekur líka þátt í:

  • Rannsóknum og ráðgjöf um lög og reglur sem varða skjólstæðinga okkar
  • Tæknilegum og fjárhagslegum stuðningi fyrir lagaskóla, ríkisstofnanir (þar á meðal lögreglu og her) og aðrar stofnanir til að þróa námskeið í flóttamannalöggjöf
  • Stuðningi við talsmannahópa mannréttinda og réttinda flóttamanna, lögfræðiráðgjafar- og frjáls félagasamtök sem áhuga hafa á vernd flóttamanna.