íþróttafólk úr hópi flóttafólks skarar fram úr á heimsmeistaramóti í Finnlandi

Íþróttafólk úr hópi flóttafólks sýnir hvað í þeim býr á móti íþróttafólki í fremstu röð.

Dominic, 18 ára, og Lydia, 17 ára, eru fulltrúar íþróttaliðs flóttafólks á heimsmeistaramóti Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins fyrir 20 ára og yngri, sem haldið er í Finnlandi. © Flóttamannastofnun SÞ/Pinja Naamaka

Lydia, 17 ára og Dominic, 18 ára eru á meðal þúsunda ungra íþróttamanna og þátttakenda frá öllum heimshornum, sem komu til Finnlands til að taka þátt í HM U20 Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins. Þau keppa ekki fyrir hönd ákveðins lands, heldur keppa þau undir fána íþróttaliðs flóttafólks þar sem einblínt er á hæfleika þeirra en jafnframt aðstæður flóttafólks um allan heim.

Það er draumi líkast fyrir hina 17 ára gömlu Lydia Mamun að taka sér stöðu við rásmarkið í 800 metra hlaupi á HM U20 Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, sem haldið er í Tampere í Finnlandi.

„Ég vil að pabbi minn verði mjög stoltur af mér og kannski get ég aðstoðað systkini mín í framtíðinni,“ segir hún. „Pabbi minn hefur sýnt hlaupaáhuga mínum mikinn stuðning, hann hringdi meira að segja í mig til að óska mér góðs gengis áður en ég lagði af stað til Finnlands.“

„Einn daginn ætla ég að verða læknir og hjálpa fjölskyldunni minni og fólki í kringum mig,“ segir Lydia Mamun. © Flóttamannastofnun SÞ/Pinja Naamaka

 

Lydia og sex systkini hennar flúðu frá Suður-Súdan í kjölfar borgarastyrjaldarinnar. Ásamt föður sínum fundu systkinin öruggt skjól í hinum víðáttumiklu Dadaab-flóttamannabúðum í norðvestur hluta Kenýa.

Lydia hafði alltaf haft áhuga á hlaupum en það reyndist henni erfitt að þroska hæfileika sína frekar, enda erfitt að þjálfa sig upp í atvinnumennsku í íþróttum í flóttamannabúðum.

Lyda býr nú við útjaður Naíróbí ásamt 25 öðrum íþróttamönnum úr hópi flóttafólks. Þetta er hluti af átaksverkefni sem stutt er af Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og Friðarstofnun Tegla Loroupe, þar sem flóttafólkið fær tækifæri til að þjálfa og bæta hlaupahæfileika sína og stunda nám.

„Einn daginn ætla ég að verða læknir og hjálpa fjölskyldunni minni og fólki í kringum mig,“ segir Lydia Mamun áður en hún hleypur af stað. Í dag hleypur hún fyrir íþróttalið flóttafólks og fær þannig tækifæri til að sýna hæfileika sína ásamt öðru íþróttafólki víðsvegar að úr heiminum. Þeir hæfileikar eiga að sjálfsögðu fullt erindi á þennan stað, en Lydia setur nýtt persónulegt met í 800 m hlaupinu í Finnlandi, 2:29,73.

En Lydia er ekki ein í Tampere. Einn þátttakenda í 1500 m hlaupi er Dominic Lokolong, 18 ára gamall flóttamaður frá Suður-Súdan sem bjó eitt sinn í Kakuma-flóttamannabúðunum ásamt bróður sínum. Hann telur að hlaup muni hjálpa honum að búa sér betra líf í framtíðinni.

„Ég er vongóður um að einn daginn muni ég vinna til verðlauna eða jafnel slá met. Þá get ég hjálpað foreldrum mínum sem eru enn í Suður-Súdan og komið bróður mínum úr flóttamannabúðunum. Ég lifi fyrir það að hlaupa,“ segir Dominic og setur í kjölfarið persónulegt met í 1500 m hlaupinu, 3:59,63.

Auk þess að eignast fjöldan allan af nýjum vinum og skemmta sér mjög vel setti íþróttafólkið persónuleg met á HM U20 Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins í Finnlandi. © Flóttamannastofnun SÞ/Pinja Naamaka

 

Heimsmeistaramót Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins fyrir 20 ára og yngri, sem hófst 10. júlí og varir í sex daga, hefur leitt saman fleiri en 1400 unga íþróttamenn og -konur frá næstum 150 löndum sem keppa í hinum ýmsu greinum. Þetta er þó í fyrsta skipti sem íþróttalið flóttafólks tekur þátt.

„Við höfum eignast svo marga vini frá hinum ýmsu heimshornum. Ég er mjög glaður,“ sagði Dominic og þakkaði Alþjóðafrjálsíþróttasambandinu fyrir að gefa honum tækifæri til að taka þátt í HM U20 og fjölda annarra keppna. Hann dreymir um að hefja starfsferil sem umboðsmaður íþróttafólks í náinni framtíð og það lítur út fyrir að góðir tímar séu framundan.

Þjálfari liðsins, Joseph Domongole, hefur verið með þeim síðan 2013. Hann dáist að því hversu hart íþróttafólkið leggur að sér og kann að meta vinnusiðferði þeirra.

„Ég er mjög ánægður með að þau hafi bæði sett ný persónuleg met, en fyrir mér er umfjöllunin það mikilvægasta. Þessi reynsla mun efla sjálfstraust þeirra gríðarlega og það líður ekki á löngu áður en við fáum verðlaun,“ segir hann stoltur.

Joseph Domongole þjálfari undirbýr Dominic fyrir hlaupið. © Flóttamannastofnun SÞ/Pinja Naamaka

 

Meðlimir íþróttaliðs flóttafólks, sem eru þjálfaðir af hinum heimsfræga keníska maraþonhlaupara og sendiherra, Tegla Loroupe, taka þátt í mörgum viðburðum í Kenýa og öðrum löndum. Verkefnið felur bæði í sér stuðning til náms og þátttöku í íþróttum, sem gefur íþróttafólkinu tækifæri til að uppfylla æskudrauma sína á fullorðinsárum.

Verkefnið í kringum íþróttalið flóttafólks hófst í Kenýa árið 2013. Árið 2016 bauð Alþjóðaólympíunefndin íþróttafólki í verkefninu að taka þátt í Ólympíuleikunum í fyrsta skipti, í Ríó de Janeiró, Brasilíu.

Meðlimir íþróttaliðs flóttafólks eru vinsælir á meðan á dvöl þeirra í Tampere stendur. Fjöldi aðdáenda vill hitta íþróttafólkið, fá mynd með þeim og senda þeim hvatningarorð. Hingað til hafa þau vingast við íþróttalið frá Portúgal, Indlandi, Lettlandi, Finnlandi, Kúbu, Úganda, Nígeríu, Svíþjóð, Búlgaríu, Frakklandi, Gvam, Barbados, Jamaica og Suður-Afríku — og mótinu er ekki lokið enn.

 

Íþróttalið flóttafólks frá vinstri til hægri: Eliza Lopilale (fararstjóri liðsins), Dominic Lokolong (íþróttamaður, 1500 m hlaup karla), Lydia Mamun (íþróttakona, 800 m hlaup kvenna), Joseph Domongole (þjálfari). © Flóttamannastofnun SÞ/Pinja Naamaka

 

Á fjórða degi fá Dominic og Lydia sér hefðbundinn finnskan morgunverð með dökku rúgbrauði á hótelinu í Tampere. Keppni er lokið, en þau eru engu að síður spennt að fara út og hitta nýju vini sína aftur.

„Þetta er búið að vera frábært hingað til og ég er mjög spenntur fyrir næstu dögum, þegar við munum fá tækifæri til að læra af Finnunum og hinu íþróttafólkinu.“ segir Dominic áður en þau flýta sér út af hótelinu og halda á leikvanginn í Tampere.