Fjölskyldur eiga að vera saman

Nauðungarflutningar hafa stundum í för með sér að fjölskyldum er tvístrað. Í samræmi við þá einföldu en mikilvægu forsendu að fjölskyldur eigi að vera saman hefur UNHCR gert fjölskyldusameiningu að forgangsatriði.

Á Norðurlöndum og í Eystrasaltslöndunum vinnur UNHCR að fjölskyldusameiningu á ýmsan hátt. Við berjumst fyrir bættu aðgengi að fjölskyldusameiningu og því að fjarlægja ýmsar lagalegar, fjárhagslegar og praktískar hindranir sem fjölskyldur takast á við.

Við ræðum líka við þau sem taka ákvarðanir, fjölmiðla og almenning um hversu mikilvæg fjölskyldusameining er, þar sem hún er lífsnauðsynleg fyrir fjölskyldur til að geta byggt líf sitt upp að nýju og aðlagast samfélaginu, sem og fyrir geðheilsu flóttafólks.

Hvað er að gerast?

Þegar átök, ofbeldi, ofsóknir og mannréttindabrot þvinga fólk á flótta – stundum án fyrirvara og í miklu öngþveiti – tvístrast margar fjölskyldur. Það geta liðið mánuðir og stundum ár þar til fólk fær fréttir af því hvar ástvinir þess eru niðurkomnir.

Þráin eftir því að sameinast fjölskyldumeðlimum er lykilástæða fyrir því að flóttafólk vill ferðast til Evrópu. Sumt grípur til þess að fara í hættulegt og óskrásett ferðalag til að geta verið saman og hætta á að lenda í lífshættu og verða fyrir misbeitingu og misnotkun á leiðinni. Enginn fjölskyldumeðlimur ætti að þurfa að taka slíka áhættu, það er grundvallarréttur þeirra að sameinast fjölskyldum sínum – það sem kallað er fjölskyldusameining.

Norðurlöndin og Eystrasaltslöndin veita flóttafólki tækifæri til fjölskyldusameiningar, þótt undanfarin ár hafi það orðið mun erfiðara. Ef flóttafólk getur ekki sameinað fjölskylduna sína getur það haft mikil áhrif á geðheilsu þeirra og færni til að aðlagast og leggja sitt af mörkum í móttökulandinu. Í raun eru margar hindranir, lagalegar, praktískar og fjárhagslegar, sem hindra sameiningu fjölskyldna flóttafólks og halda fjölskyldumeðlimum í óvissu og óöryggi til lengri tíma.

  • Lagalegar hindranir: Sum lönd hafa sett ströng tímamörk fyrir flóttafólk til að sækja um fjölskyldusameiningu, sem gerir það erfitt og jafnvel ómögulegt fyrir flóttafólk að framvísa öllum nauðsynlegum gögnum. Önnur lönd hafa langan biðtíma eða ferlið tekur mjög langan tíma. Þetta skapar óöruggar aðstæður og enn lengri aðskilnað. Auk þess skilgreina sum lönd fjölskyldu mjög þröngt og veita flóttafólki og þeim sem fá tímabundna vernd mismunandi réttindi, jafnvel þótt þau eigi að hafa sama grundvallarrétt til fjölskyldulífs.
  • Fjárhagslegar hindranir: Sum lönd hafa há umsóknargjöld, jafnvel fyrir fylgdarlaus börn, sem skilyrði fyrir því að fá að sameinast fjölskyldu sinni, á meðan önnur lönd hafa strangar reglur um tekjur flóttafólks svo það sýni fram á getu sína til að sjá fyrir fjölskyldumeðlimum. Fyrir flóttafólk sem er að reyna að aðlagast í nýju landi eftir að hafa flúið átök, stríð og ofsóknir getur verið erfitt að uppfylla þessi skilyrði.
  • Praktískar hindranir: Sum lönd krefjast þess að fjölskyldumeðlimir erlendis ferðist til að fara í sendiráð og ganga frá formsatriðum eða til að sækja vegabréfsáritun. Ferðin í sendiráðið getur bæði verið hættuleg og kostnaðarsöm, ef ekki hreinlega ómöguleg, þar sem sendiráðið getur verið langt í burtu eða jafnvel í öðru landi, sem krefst þess að farið sé yfir landamæri.

 

Hvað þarf að breytast?

Staðan gæti verið öðruvísi. Stjórnmálafólk og ríkisstjórnir hafa val um að gera fjölskyldusameiningu einfaldari, sveigjanlegri og aðgengilegri fyrir flóttafólk.

UNHCR hefur áhyggjur af nýjustu hindrunum fyrir fjölskyldusameiningu – sem stundum eru beinlínis gerðar til að aftra flóttafólki frá að sækja um alþjóðlega vernd – og hvetur lönd til að fjarlægja hindranir sem nú koma í veg fyrir að fjölskyldur sameinist.

Raunverulegar breytingar gætu snúið að því að slaka á tímamörkum, tryggja að gjöld séu í lágmarki, fjarlægja kröfu um framfærslu og taka upp sveigjanlegri nálgun hvað varðar skilgreiningu á fjölskyldu, samþykki á gögnum og kröfur um að mæta persónulega í sendiráð til auðkenningar og útgáfu á ferðaskilríkjum.

 

Skýrslur og aðrar heimildir

Tillögur Flóttamannastofununar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR)

Árið 2023 gaf Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) út tillögur til Evrópulanda og stofnana Evrópusambandsins um hvernig mætti tryggja að aðgerðir í kringum fjölskyldusameiningu væru hraðari og öruggari fyrir alla sem að þeim koma. Sjá tengil hér.

5 staðreyndir um fjölskyldusameiningu

Bæklingur með 5 staðreyndum um fjölskyldusameiningu, þróaður af Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna fyrir Norðurlönd og Eystrasaltslönd. Hlekkur hér.