Allt að ein milljón gæti flúið Mosul

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) segist búa sig undir hið versta nú þegar búist er við fjöldaflótta frá borginni Mosul sem Íraksher ætlar að frelsa úr höndum hins svokallaða íslamska ríkis.

Þessi grein birtist fyrst á UNRIC.org

Búist er við að allt að ein milljón manna flýi átökin um borgina.

Flóttamannastofnun SÞ hefur birt ákall þar sem fólk um allan heim er hvatt til þess að láta fé af hendi rakna til að hægt verði að koma upp skýlum, útvega mat, vatn og aðrar nauðsynjar auk þess sem búast má við að sinna þurfi þörfum barna og veita nauðsynlega læknisþjónustu.
Gefið fé núna, við höfum skamman tíma til stefnu, kannski aðeins klukkustundir áður en þúsundir fjölskyldna flýja Mosul,” segir Flóttamannastofnun SÞ á heimasíðu sinni.

„Við höfum birgðir af lífsnauðynjum, en við erum vanbúin til að mæta fyrirsjáanlegu neyðarástandi og við getum ekki gert þetta ein,“ segir á vefsíðu Flóttamannastofnun SÞ. „Við höfum minna en helmings þess fjár sem þarf til að mæta neyðarástandinu. Gerið svo vel að hjálpa okkur að tryggja að þessar veikburða fjölskyldur lifi af.“

Filippo Grandi Flóttamannastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur hvatt írösku stjórnina til þess að láta vernd óbreytta borgara sitja í fyrirrúmi nú þegar hernaðaraðgerðir í Mosul eru hafnar.

„Vernd óbreyttra borgara ber að vera lykilatriðið í þessum aðgerðum að okkar áliti,“ sagði Grandi á blaðamannafundi í Bagdad örfáum stundum eftir upphaf hernaðaraðgerða sem miða að því að ná yfirráðum yfir Moskul, sem er næst stærsta borg Íraks. Þar bjuggu 2.5 milljónir manna þegar vígamenn náðu henni á vald sitt í júní 2014.

Nú þegar áður en hernaðaraðgerðir hófust í Mosul höfðu 3.3 milljónir manna lent á vergangi í Írak vegna átaka eða um tíundi hluti þjóðarinnar.
Grandi heimsótti búðir fyrir fólk á flótta innanlands í Kúrdahéruðum Íraks á meðan á fjögurra daga heimsókn hans stóð í Írak.

Rusul, ung írösk kona flúði heimabæ sinn nærri Mosul. Hún sagði Grandi frá þeim ótta og eyðileggingu sem hún og annað uppflosnað fólk hefði orðið vitni að.

„Fólk er óttaslegið,“ sagði unga konan. „Hús okkar voru brennd og eyðilögð. Guði sé lof þá er ástandið betra hér. Fólk hefur verið okkur gott hér.“

Hér má gefa fé til flóttamanna í Mosul: https://donate.unhcr.org/int-en/iraq#_ga=1.266489416.73470042.1476874645

Nánari upplýsingar um ástandið í Mosul: http://www.unhcr.org/iraq-emergency.html