Eitt ár liðið: Stuðningur frá Norðurlöndunum og Eystrasaltslöndunum mikilvægur í að hjálpa Úkraínumönnum á flótta

Þann 24. febrúar 2022, hófu Rússar hernaðarinnrás inn í Úkraínu. Á einu ári, hafa 5.3 milljónir manna verið á vergangi innan Úkraínu, á meðan 8 milljónir til viðbótar hafa flúið til annarra Evrópulanda þar á meðal Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna.

Hið stórfellda neyðarástand í mannúðarmálum stendur enn yfir í Úkraínu, og skjót viðbrögð framlagsríkja hafa hjálpað Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna að bregðast við með aðstoð og vernd til stríðshrjáðra íbúa landsins sem og flóttafólks frá Úkraínu, sem hafa verið hýst í öðrum löndum.

Á vetrarmánuðunum setti UNHCR af stað svokallaða „Vetrarviðbragðsáætlun“ sem miðaði að því að hjálpa flóttafólki að lifa af kuldann. Þetta verkefni hefur falið í sér að veita stuðning í formi skjóls, smávægilegra viðgerða á heimilum, útdeilingu vetrarfatnaðar og beina aðstoð í formi peninga.

Yfir 4.3 milljónir manna, sem urðu fyrir barðinu á stríðinu, fengu aðstoð innan landamæra Úkraínu af Flóttamannastofnuninni sem hluti af neyðarviðbrögðum Flóttamannastofnunarinnar. Aðstoðin spannaði allt frá teppum og eldhúsáhöldum til byggingarefnis, skjóls, lögfræðiaðstoðar og ráðgjafar.

Árið 2022 skipulagði UNHCR 626 mannúðar bílalestir og tók þátt í 27 öðrum ásamt samstarfsaðilum í mannúðarmálum. Þetta gerði fólki á erfiðum svæðum kleift að fá nauðsynlega aðstoð. Birgðir eru oft af skornum skammti á stríðshrjáðum svæðum, en með því að skipuleggja þessar bílalestir gátu Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og samstarfssamtök veitt þeim neyðaraðstoð sem mest þurftu á henni að halda.

Innan Úkraínu hafa meira en 1,2 milljónir manna fengið markvissa verndaraðstoð og upplýsingar sem er mikilvægur liður í því að aðstoða flóttafólk á hættusvæðum. Þetta felur til dæmis í sér að upplýsa flóttafólk um mannréttindi og lagaleg réttindi sín, ásamt því aðvísa viðkvæmum flóttamönnum á viðeigandi þjónustu auk þess að veita þeim sem neyðast til að flýja andlegan stuðning.

Yfir 987.000 manns í Úkraínu hafa verið studd með margnota peningaaðstoð til að mæta grunnþörfum þeirra. Fólk sem hefur neyðst til að flýja hefur í mörgum tilfellum þurft að yfirgefa tekjulind sína og aðstoð í formi peninga hefur gert Úkraínumönnum sem eru á flótta innan eigin lands mögulegt að kaupa mat og aðrar nauðsynlegar birgðir eins og lyf og hreinlætisvörur.

Rúmlega 1,7 milljónum hefur verið hjálpað með nauðsynjar eins og dýnur, rúmföt, handklæði og eldhúsáhöld, auk nauðsynlegra hluta fyrir veturinn eins og teppi, hitabrúsa, hitara og hlýjum fötum. Margir Úkraínumenn hafa verið neyddir til að yfirgefa heimili sín án þess að hafa eigur sínar meðferðis og slík aðstoð getur hjálpað til við að tryggja lágmarks lífskjör sem og reisn fyrir þá sem þurfa á þeim að halda.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur hjálpað til við að tryggja skjól og þak yfir höfuðið fyrir meira en 164.000 manns í Úkraínu með inngripum fyrir fjöldahjálparstöðvar og skemmd heimili. Þessi tala tekur bæði til viðgerða á eyðilögðum húsum og til þeirra sem hafa verið á flótta og búa í fjöldahjálparstöðvum líkt og íþróttahúsum og vöruhúsum sem hefur verið breytt í bráðabirgðahúsnæði fyrir flóttamenn. Að auki hefur stækkun rýma í fjöldahjálparstöðvum hjálpað til við að yfirfylla ekki stöðvarnar.

Þar sem orkuinnviðir hafa orðið fyrir miklum skaða í stríðinu, afhenti Flóttamannastofnunin 81 rafala árið 2022 til úkraínskra samfélaga í neyð. Að tryggja stöðugt framboð á raforku fyrir þá sem urðu fyrir barðinu á stríðinu hefur verið lífsnauðsynlegt á tímum þegar rafmagnskerfi hafa átt undir högg að sækja og hefur verið forgangsverkefni í hjálparstarfinu að tryggja stöðugt framboð á raforku.

Í Moldavíu fengu meira en 45.000 úkraínskir flóttamenn aðstoð á tíu bláu punkta miðstöðvunum sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og UNICEF opnuðu í landinu. Bláu punkta miðstöðvarnar – alls 40 slíkar stöðvar hafa verið staðsettar í átta mismunandi löndum – eru mönnuð af þjálfuðum umönnunaraðilum sem leitast við að veita öruggt næði og nauðsynlega þjónustu fyrir sérstaklega viðkvæma flóttamenn.

Í Ungverjalandi hafa meira en 50.000 flóttamenn frá Úkraínu fengið aðstoð þegar að kemur að vernd og lagalegan stuðning frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og staðbundinna samstarfsaðila. Þessi aðstoð hefur snúist um bæði lögfræðiráðgjöf og sálfræðiþjónustu og hefur aðstoðað þá sem þurfa á hjálp að halda með bæði hvað varðar réttindabaráttu og áfallahjálp.

Í Póllandi voru tekin viðtöl við meira en 52.000 úkraínska flóttamenn sem leiddu í ljós að brýnustu þarfir þeirra voru gisting, peningaaðstoð, aðgangur að atvinnu, læknismeðferð og menntun. Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna svaraði kallinu og veitti meira en 293.000 flóttamönnum sem hýst eru í Póllandi peningaaðstoð.

Í Rúmeníu hafa meira en 165.000 flóttamenn sem komið hafa frá Úkraínu fengið nauðsynlegan vetrarvarning eins og hlý teppi og hitagjafa til að lifa af mikinn kulda. Að auki hafa meira en 43.000 flóttamenn sem hýst eru í Rúmeníu fengið peningaaðstoð frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna til að mæta grunnþörfum sínum.

Danmörk sem framlagsríki

Danmörk lét af hendi rakna yfir 106,9 milljónir Bandaríkjadala til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna árið 2022. Þar af voru meira en 35,6 milljónir Bandaríkjadala óeyrnamerkt fé. Meira en 13 milljónir Bandaríkjadala af framlögum Danmerkur til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna hafa farið til ástandsins í Úkraínu. Árið 2022 var Danmörk áttundi stærsta framlagsríki okkar og jók framlög sín frá fyrra ári um 5,7 milljónir Bandaríkjadala.

Noregur sem framlagsríki

Noregur lét af hendi rakna rúmlega 118,2 milljónir Bandaríkjadala til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna árið 2022. Þar af voru meira en 72,5 milljónir Bandaríkjadala óeyrnamerkt fé. Noregur er næsthæsta framlagsríki miðað við höfðatölu og jók framlög sín um meira en 10% á síðasta ári. Meira en 26,9 milljónir Bandaríkjadala af framlögum Noregs til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna hafa farið til ástandsins í Úkraínu.

Svíþjóð sem framlagsríki

Svíþjóð lét af hendi rakna yfir 145,6 milljónir Bandaríkjadala til Flóttamannastofnunar árið 2022. Þar af voru meira en 99,2 milljónir Bandaríkjadala óeyrnamerkt fé, sem var langstærsta magn af óeyrnamerktu féi sem lagt var af mörkum af einu landi. Meira en 15,3 milljónir Bandaríkjadala af framlögum Svíþjóðar til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna hafa farið í ástandið í Úkraínu.

Finnland sem framlagsríki

Finnland lét af hendi rakna rúmlega 27,5 milljónir Bandaríkjadala til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna árið 2022. Þar af voru meira en 8,2 milljónir Bandaríkjadala óeyrnamerkt fé. Meira en 5,8 milljónir Bandaríkjadala af framlögum Finnlands til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna hafa farið í ástandið í Úkraínu.

Ísland sem framlagsríki

Ísland lét af hendi rakna rúmlega 4,1 milljón Bandaríkjadala til Flóttamannastofnunar árið 2022. Þar af voru rúmlega 1,5 milljónir Bandaríkjadala óeyrnamerkt fé. Á síðasta ári hefur Ísland aukið framlög sín til Flóttamannastofnunar um meira en 50% og er nú sjöunda stærsta framlagsríki stofnunarinnar miðað við höfðatölu. Meira en 1,1 milljón Bandaríkjadala af framlögum Íslands til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna hefur runnið til ástandsins í Úkraínu.

Eistland sem framlagsríki

Eistland lét af hendi rakna 700.283 Bandaríkjadali til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna árið 2022. Þar af voru 119.474 Bandaríkjadalir óeyrnamerkt fé. 247.811 Bandaríkjadalir af framlögum Eistlands til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna hafa farið til ástandsins í Úkraínu.

Lettland sem framlagsríki

Lettland lét af hendi rakna 131.435 Bandaríkjadali til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna árið 2022, sem er mikil aukning miðað við tölurnar árið 2021. Allt féð var eyrnamerkt ástandinu í Úkraínu.

Litháen sem framlagsríki

Litháen lét af hendi rakna 225.225 Bandaríkjadali til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna árið 2022, sem er mikil aukning miðað við tölurnar 2021. Þar af voru 112.613 Bandaríkjadalir óeyrnamerkt fé sem hægt var að nota í skyndilegum neyðartilvikum.