Neyðarástand í menntamálum flóttafólks: Meira en helmingur flóttabarna á skólaaldri fær ekki menntun

Í skýrslu UNHCR, Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, sem kemur út í dag, kemur fram að af 7,1 milljón flóttabarna á skólaaldri, gengur meira en helmingur, eða 3,7 milljónir, ekki í skóla.

Skýrslan, Gefið í: Neyðarástand í menntamálum flóttafólks, sýnir að eftir því sem flóttabörn verða eldri mæta þau stærri hindrunum þegar þau reyna að sækja sér menntun. Aðeins 63% flóttabarna ganga í grunnskóla, samanborið við 91% á heimsvísu. 84% ungmenna um allan heim fá framhaldsskólamenntun en aðeins 24% flóttafólks fá slíkt tækifæri.

„Það er í skólunum sem flóttafólk fær annað tækifæri,“ sagði Filippo Grandi, flóttamannafulltrúi SÞ.  „Við erum að bregðast flóttafólki með því að gefa því ekki tækifæri til að sækja sér þá færni og þekkingu sem það þarf til að búa sér framtíð.“

Sá mikli samdráttur sem á sér stað í skólasókn milli grunnskóla og framhaldsskóla er bein afleiðing af skorti á fjármögnun á menntun fyrir flóttafólk. Því hvetur UNHCR stjórnvöld, einkageirann, menntasamtök og velunnara til að veita fjárhagsstuðning nýju verkefni sem ætlað er að fjölga verulega því flóttafólki sem fær framhaldsskólamenntun.

„Við þurfum að fjárfesta í menntun flóttafólks, annars munum við greiða gjald í formi heillar kynslóðar barna sem dæmd eru til að vaxa úr grasi án þess að geta staðið á eigin fótum, fengið vinnu og lagt til samfélagsins er,“ bætti Grandi við.

Framhaldsskólaverkefnið mun standa fyrir byggingu skóla og útbúnaði í þá, þjálfun kennara og fjárhagsstuðningi fyrir flóttafjölskyldur svo þær ráði við kostnaðinn sem fylgir því að senda börnin í skóla.

Skýrslan í ár kallar líka eftir því að flóttafólk fái aðgang að almennu menntakerfi þjóða í stað þess að ganga í sérstaka skóla utan almenna skólakerfisins, og að það fái að fylgja formlegum og viðurkenndum námsskrám alla leið í gegnum leik-, grunn- og framhaldsskóla. Þannig getur flóttafólk sótt sér viðurkennda menntun sem getur nýst sem stökkpallur upp í háskóla eða iðn- og tækninám á framhaldsstigi.

Af þeim ungmennum í dag sem þó tekst að sigrast á hindrunum og ljúka framhaldsskóla, eru einungis 3% svo heppin að komast í einhvers konar framhaldsnám. Það er sláandi í samanburði við þau 37% ungmenna á heimsvísu sem fá slíkt tækifæri.

UNHCH óskar einnig eftir raunhæfari nálgun af hálfu skóla, háskóla og menntamálaráðuneyta hvað varðar kröfur um persónuskilríki og prófskírteini. Margt flóttafólk er útilokað frá skólastofum vegna þess að það skildi eftir prófskírteini og vottorð, sem og persónuskilríki, þegar það flúði heimili sitt. En jafnvel þegar þessi gögn eru til staðar neita sum lönd að viðurkenna vottorð og skírteini sem gefin eru út í heimalandi flóttafólksins.

Menntun fyrir flóttabörn heimsins er aðkallandi málefni. Í árslok 2018 voru fleiri en 25,9 milljónir flóttafólks í heiminum, þar af 20,4 milljónir undir væng UNHCR. Um það bil helmingur var undir 18 ára aldri og fyrir milljónir var um að ræða langvarandi ástand með lítilli von um að geta snúið heim í nánustu framtíð.

Að skapa stuðning fyrir framhaldsskólaverkefnið verður lykilatriði á komandi Heimsþingi um málefni flóttafólks sem haldið verður í desember 2019 og er mikilvægt tækifæri til þess að virkja samtakamátt heimsins og bregðast við ástandinu í málefnum flóttafólks.