Stríð, ofbeldi og ofsóknir valda fordæmislausum fjölda flóttafólks

Fjöldi þeirra sem þvingaðir hafa verið á flótta vegna stríðs, ofbeldis og ofsókna var sá mesti sem nokkru sinni hefur verið skráður árið 2016, samkvæmt skýrslu sem Flóttamannastofnun SÞ gaf út í dag.

Samkvæmt nýrri skýrslu Flóttamannastofnunar, Þróun á heimsvísu, árlegri könnun stofnunarinnar á fjölda fólks á flótta, voru í árslok 2016 um allan heim 65,6 milljónir einstaklinga sem þvingaðir höfðu verið á flótta – um 300.000 fleiri en árið áður. Þessi fjöldi er til vitnis um þann gríðarlega fjölda fólks sem þarfnast verndar um heim allan.

Talan 65,6 milljónir er samsett úr þremur mikilvægum þáttum. Í fyrsta lagi er það fjöldi flóttamanna, en 22,5 milljónir eru mesti fjöldi sem sést hefur. Af þeim eru 17,2 milljónir á ábyrgð Flóttamannastofnunar SÞ og hinir eru palestínskir flóttamenn sem skráðir eru hjá systurstofnun okkar Palestínuflóttamannaaðstoð SÞ. Flestir flóttamenn koma vegna átakanna í Sýrlandi (5,5 milljónir), en árið 2016 var stærsta nýja uppsprettan Suður-Súdan þar sem hörmuleg endalok friðaraðferlis í júlí sama ár stuðlaði að því að 739.900 manns flúðu fyrir lok árs (1,87 milljónir til dagsins í dag).

Í öðru lagi er það fólk sem er á vergangi innan eigin lands, en það voru 40,3 milljónir í lok 2016 samanborið við 40,8 milljónir ári áður. Sýrland, Írak og umtalsverður fjöldi veglausra sem enn eru innan Kólumbíu, voru stærstu hóparnir, en veglausir í eigin landi eralheimsvandamál og á við um tvo þriðju allra þeirra sem þvingaðir eru á flótta.

Í þriðja lagi eru það hælisleitendur, fólk sem hefur flúið land sitt og leitar alþjóðlegrar verndar sem flóttamenn. Í árslok 2016 var heildarfjöldi þeirra sem leitaði hælis 2,8 milljónir.

Allt þetta samanlagt er sá gríðarlegi mannlegi kostnaður sem hlýst af stríði og ofsóknum á heimsvísu: 65,6 milljónir þýðir að að meðaltali er einn af hverjum 113 einstaklingum um allan heim í dag einhver sem er veglaus – fleiri en íbúar Bretlands, sem er 21. fjölmennasta land heims

„Þetta er óásættanlegur fjöldi, sama hvernig á það er litið, og sýnir enn frekar en áður þörfina fyrir samstöðu og sameiginleg markmið við að koma í veg fyrir og leysa neyðarástand og tryggja í sameiningu að flóttafólk heimsins, veglausir í eigin landi og hælisleitendur, fái viðeigandi vernd og umönnun á meðan fundin er lausn,“ sagði Filippo Grandi, flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna. „Við verðum að gera betur fyrir þetta fólk. Heimur í átökum þarf ákveðni og hugrekki, ekki ótta.„

Meginniðurstöður Þróunar á heimsvísu eru að ný tilfelli fólks á flótta er enn í hámarki. Af þeim 65,6 milljónum manna sem neyddust til að flýja lögðu 10,3 milljónir á flótta árið 2016, um það bil tveir þriðju þeirra (6,9 milljónir) eru á flótta innan eigin lands. Þetta jafngildir því að ein manneskja fari á flótta á 3 sekúndna fresti – sem er styttri tími en tekur að lesa þessa setningu.

Á sama tíma vöktu endurkomur flóttafólks og fólks sem var veglaust í eigin landi til upprunalands, ásamt öðrum lausnum svo sem búsetu í þriðja landi, vonir hjá sumum um að ástandið væri að batna árið 2016. Ein 37 lönd tóku á móti 189.300 flóttamönnum til búsetu. Um hálf milljón annars flóttafólks gat snúið til heimalands síns og um 6,5 milljónir veglausra í eigin landi til upprunasvæða sinna – þó að margir gerðu það við aðstæður sem ekki voru eins og best væri á kosið og framtíðarhorfur þeirra séu ótryggar.

Á heimsvísu voru flestir flóttamenn, eða 84%. í lág- eða meðaltekjumarlöndum í lok 2016 og einn af hverjum þremur (4,9 milljónir) er í minnst þróuðu löndunum. Þetta mikla ójafnvægi endurspeglar nokkra hluti svo sem viðvarandi skort á samstöðu á alþjóðavettvangi þegar kemur að móttöku flóttamanna til búsetu og nálægð margra fátækra landa við átakasvæði. Það undirstrikar einnig mikilvægi öflugs stuðnings við lönd og samfélög sem styðja flóttamenn og annað veglaust fólk, því að skortur á stuðningi getur valdið óstöðugleika, haft áhrif á mannúðarstarf sem bjargar mannslífum eða leitt til frekari flótta.

Miðað við fólksfjölda er Sýrland enn helsta uppspretta fólks á flótta þar sem um 12 milljónir einstaklinga (um tveir þriðju hlutar íbúanna) eru annaðhvort veglausir í eigin landi eða hafa flúið erlendis sem flóttamenn eða hælisleitendur. Fyrir utan langvarandi ástand palestínskra flóttamanna eru Afganar næst fjölmennastir (4,7 milljónir) og síðan Írakar (4,2 milljónir) og Suður-Súdanar (sá hópur sem hraðast vex en 3,3 milljónir hafa flúið heimili sín í árslok).

Börn, sem eru helmingur flóttafólks í heiminum, bera enn óhóflega byrðar þjáningar, aðallega vegna þess hve varnarlaus þau eru. Það er átakanleg staðreynd að 75.000 beiðnir um hæli voru lagðar fram af börnum sem ferðuðust ein eða höfðu orðið viðskila við foreldra sína. Í skýrslunni kemur fram að jafnvel þessi tala sé líklega vanmat á raunverulegu ástandi.

Flóttamannastofnunin áætlar að í árslok 2016 hafi að minnsta kosti 10 milljónir verið án ríkisfangs eða í hættu á að missa ríkisfang sitt. Hins vegar ná gögn sem ríki miðluðu til Flóttamannastofnunar SÞ aðeins yfir 3,2 milljónir ríkisfangslausra einstaklinga í 74 löndum.

Þróun á heimsvísu er tölfræðilegt mat á umfangi flótta og sem slíkt nær það ekki yfir suma lykilþætti flóttamannavandans árið 2016. Þar á meðal er vaxandi notkun hælismála í pólitískum tilgangi í mörgum löndum og vaxandi takmarkanir á aðgangi að vernd á sumum svæðum, en einnig jákvæð þróun, svo sem sögulegar ráðstefnur um flóttamenn og innflytjendur í september 2016 og tímamóta New York-yfirlýsingin sem kom í kjölfar þeirra, hin nýja samfélagsnálgun til að takast á við flóttaaðstæður sem lögð var fram undir Heildrænum viðbrögðum við vanda flóttamanna og hið mikla örlæti ríkja sem taka á móti flóttafólki og gjafaríkja gagnvart flóttamönnum og öðru fólki á flótta.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, gefur árlega út skýrsluna Þróun á heimsvísu byggða á eigin gögnum, gögnum sem hún fær frá samstarfsaðilanum sínum hjá Miðstöð um eftirlit með veglausu fólki í eigin landi og gögnum sem hún fær frá ríkisstjórnum.

 

Caroline Bach

Associate Communication Officer | Spokesperson for Denmark, Finland, Iceland, Norway and Sweden

Office: +46 (0)8 457 4874

Mobile: +46 (0)709 16 57 19

Email Caroline