Sex einstaklingar létu lífið á degi hverjum árið 2018 við að reyna að komast yfir Miðjarðarhafið, samkvæmt skýrslum Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNHCR.

Áætlað er að 2.275 hafi látist eða horfið á leið sinni yfir Miðjarðarhafið árið 2018, þrátt fyrir að mjög hafi dregið úr fjölda þeirra sem komust til Evrópu.

© UNHCR/Hereward Holland

Óhugnanlegur fjöldi flótta- og farandfólks lét lífið árið 2018 við að reyna að komast til Evrópu um Miðjarðarhafið, en niðurskurður í leitar- og björgunaraðgerðum gerði það að verkum að leiðin varð á ný að hættulegustu flóttaleið veraldar um sjó. Í nýjustu skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, sem heitir „Örvæntingarfullt ferðalag“ og gefin var út í dag, segir að sex hafi látist að meðaltali dag hvern.

Áætlað er að 2.275 hafi látist eða horfið á leið sinni yfir Miðjarðarhafið árið 2018, þrátt fyrir að mjög hafi dregið úr fjölda þeirra sem komust til Evrópu. Alls komu 139.300 flóttamenn og farandfólk til Evrópu, minnsti fjöldi á síðustu fimm árum.

„Að bjarga lífi á hafi úti er ekki spurning um val eða pólitík, heldur aldagömul skylda,“ sagði Filippo Grandi, flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna. „Við getum bundið enda á þessar hörmungar með því að hafa kjark og framtíðarsýn til að horfa lengra en til næsta báts og setja fram langtíma nálgun byggða á samvinnu sem setur mannlega reisn og virðingu í öndvegi.“

Skýrslan útskýrir hvernig stefnubreytingar í sumum Evrópuríkjum ollu því að stórir hópar fólks voru látnir bíða í óvissu á hafi úti dögum saman, meðan beðið var eftir leyfi til að leggja að landi. Bátar og áhafnir frjálsra félagasamtaka þurftu að takast á við vaxandi takmarkanir varðandi aðgerðir þeirra við leit og björgun. Á leiðinni frá Líbýu til Evrópu um haf lést einn einstaklingur fyrir hverja 14 sem komust til Evrópu, sem er mikil aukning frá 2017. Til viðbótar var þúsundum snúið til baka til Líbýu þar sem þeirra biðu hræðilegar aðstæður í fangabúðum.

Það að komast til Evrópu markaði fyrir marga endalok martraðarkenndrar ferðar þar sem þeir höfðu þurft að þola pyntingar, nauðganir og annað kynferðisofbeldi sem og hótanir um að vera rænt gegn lausnargjaldi. Ríki verða að grípa til aðgerða strax til að brjóta upp smyglhringi og draga gerendur þessara glæpa fyrir dómstóla.

Þó kviknaði ný von sumstaðar. Þrátt fyrir pattstöðu sem kom í veg fyrir svæðisbundna nálgun varðandi björgun á sjó og landgöngu, eins og UNHCR og IOM kölluðu eftir í júní sl., hafa nokkur ríki skuldbundið sig til að taka á móti fólki sem bjargað er á Miðjarðarhafi, og er það vísir að traustri og varanlegri lausn. Einnig lofuðu ríkin að taka á móti þúsundum einstaklinga sem bjargað væri beint frá Líbýu.

Skýrslan sýnir líka fram á að þær leiðir sem flótta- og farandfólk notar hafa breyst mikið.  Í fyrsta sinn á undanförnum árum hefur Spánn orðið helsta leiðin inn í Evrópu og hafa um 8.000 komið þangaðlandleiðina (í gegnum yfirráðasvæði þeirra í Ceuta og Melilla) og öðrum 54.800 einstaklingum tókst að komast yfir hinn hættulega vesturhluta Miðjarðarhafsins. Afleiðing þess er sú að tala látinna á vesturhluta Miðjarðarhafsins fjórfaldaðist, úr 202 árið 2017 upp í 777. Flótta- og farandfólk sem kom til Ítalíu árið 2018 var um 23.400, fimmtungur þess sem var á fyrra ári. Svipaður fjöldi kom um haf til Grikklands, um 32.500 samanborið við 30.000 árið 2017, en fjöldi þeirra sem kom yfir landamærin frá Tyrklandi nærri þrefaldaðist.

Annars staðar í Evrópu skráði Bosnía og Hersegóvína um 24.000 komur, þar sem flótta- og farandfólk var á leið í gegnum vesturhluta Balkanskaga. Kýpur tók á móti nokkrum bátum með sýrlensku flóttafólki frá Líbanon, og lítinn fjöldi fólks kom til Bretlands frá Frakklandi í árslok.